Þetta hefði mig aldrei grunað! Samúel hefur heldur betur farið á bak við mig.
Ég lá dottandi uppi í rúmi þegar bjallan hringdi í gær. Kannski hef ég tekið of margar valíum eða drukkið of mikið púns, að minnsta kosti var ég eilítið ringluð þegar ég skreiddist fram úr rúminu og áttaði mig alls ekki á því hvort klukkan væri ellefu að kvöldi eða morgni. Ég steig náttúrulega beint ofan í ísboxið við rúmstokkinn og velti við smákökuboxinu sem var á náttborðinu.
Einhvern veginn tókst mér þó að komast til dyra. Um leið og ég opnaði dyrnar ruddist inn stór og reiður maður og byrjaði að æpa á mig. Á meðan gólfið gekk í bylgjum reyndi ég að fá hann í fókus en heyrði ekkert hvað hann var að æpa. Að lokum þagnaði hann og spurði mig síðan hvort ekki væri allt í lagi. Svo losaði hann tak mitt á dyrahúninum og studdi mig að sófanum. Næsti klukkutími er í nokkurri móðu en ég man að hann gaf mér mikið vatn að drekka og svo kaffi, opnaði gluggana (Kirka slapp út) og var bara hinn hjálplegasti. Ekki leið á löngu þar til ég var orðin nógu hress til að bjóða honum upp á jurtate og skonsur og þá loks spurði ég hann um erindið.
,,Ég er eiginmaður Samúels," sagði hann. Þvílíkt reiðarslag. ,,Hann er þá bæði hommi og giftur!" hrópaði ég örvæntingarfull. ,,Nei, hann er bæði kona og gift," svaraði eiginmaðurinn, sem var löngu hættur að vera reiður og var bara orðinn hinn almennilegasti. Svo útskýrði hann fyrir mér að Samúel hefði villt á sér heimildir (að svona fólk skuli vera á Netinu), að hann væri eiginkona hans og - það sem mér finnst verst - að hún ætti í nokkrum slíkum Netsamböndum og hefði stundað það mikið að stofna til slíkra kynna á netinu. ,,Netkynlífsfíkill" sagði hann. Þvílíkt og annað eins. En nú ætla ég að leggja mig aftur, ég þarf að melta þetta allt.