Jæja, lögreglan er loksins búin að taka skýrslu og mamma hans Gústa búin að ná í hann. Ég skil nú ekki enn hvernig drengstaulanum tókst að læsa sig úti en hann heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi verið að elta innbrotsþjóf og að innbrotsþjófurinn hafi hlaupið inn í garðinn minn! Ég skil nú ekki hvers vegna hann gat ekki brugðið um sig handklæði drengurinn, þótt hann væri að koma úr sturtu.
Þið getið ímyndað ykkur áfallið sem ég fékk þegar ég kíkti út um stofugluggann til að kíkja eftir nágrannakettinum og sá loðinn karlmannsrass standa út úr runna.
Auðvitað hringdi ég í lögregluna því ég hélt að þarna væri komið eitt stykki ,,pelvert" eins og það er kallað. Og þeir eru víst hættulegir. Já, en svo sneri hann sér við og þá hrópaði ég í símann: ,,En nei, þetta er bara hann Gústi litli - ja hérna og hreint ekki svo lítill!" Lögreglumaðurinn fór þá eitthvað að þusa um að það væri lögbrot að gera símaat í lögreglunni en ég var þá þegar komin hálfa leið út í garð. Gústi fölnaði upp þegar hann sá mig og reyndi að skýla nekt sinni bak við laufblað (það dugði nú skammt) en tókst þó að hiksta út úr sér sögunni um innbrotsþjófinn. Í því kemur löggan og þetta varð hálfgert húllumhæ, leit svolítið vandræðalega út enda Gústi nokkuð yngri en ég.
Nú og svo komst hann ekki einu sinni inn til sín aftur drengurinn og þurfti að híma hér með hattinn minn á viðkvæmum stað þar til mamma hans, hún Jóa á númer 12, kom loksins af bingókvöldi. Ég lánaði honum útsaumuðu svuntuna mína til að fara í heim og þarf því að ná í hana aftur á morgun. Enda langar mig að forvitnast svolítið meira. Mér fannst þetta nú ekki trúleg saga hjá honum Gústa litla - sem reyndar er kominn í tölvunarfræði í háskólanum - og er staðráðin í að komast að hinu sanna um málið.